Takk fyrir komuna

BLAKA 2018 er lokið. Kærar þakkir fyrir komuna og 544 leikir að baki.43. Öldungamót BLÍ hefur runnið sitt skeið á enda og endurminningar um góðar stundir standa eftir. 
Það er einlæg von okkar mótshaldara að þið hafið notið daganna hér á Akureyri og að við höfum staðið nægilega vel undir væntingum ykkar.
Ykkur viljum við ekki aðeins þakka fyrir komuna heldur enn frekar fyrir jákvæðni, leikgleði og ánægjulega viðkynningu. Ennfremur er ekki hægt að kvitta út þetta mót án þess að nefna dómgæslu mótsins. 226 dómarar eru á skrá á blak.is og voru undirtektir ykkar við nýja fyrirkomulaginu framar björtustu vonum. Okkar bíður að finna út hvað rennur í ferðastyrktarstjóð ungmenna í íþrótt okkar og halda áfram að vinna að stofnun sjóðsins formlega innan BLÍ.
Mótið er stórt og margs að gæta. Ykkur sem eruð stúrin vegna einhvers sem var áfátt í framkvæmd og skipulagningu viljum við biðjast velvirðingar. 
Mótshöldurum Öldungamóts BLÍ 2019, Keflavík og Þrótti Reykjavík, og 2020, Blakfélagi Fjallabyggðar og ÍBV, óskum við til hamingju með hnossið. 
Það er unun að upplifa uppgang og framfarir blaksins á Íslandi. Í öldungablakinu er eilíft vor og við springum út og ilmum eins og blómabreiða í litríkri, villtri og fjölbreyttri náttúru.